Forfaðir hvala var ferfætt landdýr á stærð við hund og með fit milli tánna. Nafnið; Paki-hvalur á íslensku, er dregið af landinu Pakistan því steingervingar dýrsins hafa fundist þar sem það land er nú. Pakicetus hélt sig við strendur og grynningar, og þróaðist í það að dvelja langdvölum í vatni. Það tók þó 10 milljón ár til viðbótar fyrir afkomendur pakihvalsins að verða eingöngu vatnadýr. Þessi langa þróunarsaga skýrist af því að til að lifa eingöngu neðarsjávar þarf líkaminn að breytast all verulega. Á þessum milljónum ára minnkuðu afturfæturnir þar til þeir voru nánast ekki neitt, höfuðkúpan stækkaði og lengdist og öndunaropið, sem áður voru nasirnar fremst á trýninu, færðist upp á kollinn (ef hægt er að tala um koll á hvölum). Framfæturnir þróuðust svo í bægsli og hryggjarliðum í bakinu fjölgaði, svo dýrin urðu lengri eftir því sem þau nálgast okkar tíma.
Hvenær uppi: Fyrir um 49 milljónum ára síðan, á eósentímabilinu. Eósen var hlýjasta skeið nýlífsaldar og hitinn þá var nærri 10°C hærri en meðalhiti nú á tímum.
Stærð: á við úlf eða stóran hund (t.d. Siberian Husky eða Alaskan Malamute)
Þyngd: u.þ.b. 45 kg.
Mataræði: aðallega fiskur, en gerð og röðun tannanna bendir til þess.
Fundarstaðir: Pakistan (Suður-Asía).
Áhugavert: Þrátt fyrir sjávarlíferni hélt pakicetus enn í mörg einkenni landdýra, svo sem vel nothæfa fætur til göngu á landi og heyrnarkerfi sem hentaði betur til að heyra ofansjávar í lofti en neðansjávar í vatni. Næsti forfaðir hvalanna, Ambulocetus, sem kom fram á sjónarsviðið um milljón árum síðar hafði eyru eða heyrnarkerfi sem hentaði best í vatni.
Allir þessir forverar hvala á myndinni hér fyrir ofan komu fram á eósen-tíma, en þó á mismunandi tímum.
- Pakicetus fyrir 49 milljónum ára.
- Ambulocetus fyrir 48 milljónum ára.
- Remingtoncetus fyrir 45-43,5 miljónum ára.
- Protocetus fyrir 45-43,5 miljónum ára.
- Basilosaurus fyrir 40-34 milljónum ára.
Heimildir og tengt efni:
Alfræðivefurinn Britannica – um pakicetus
NYIT – New York Institute of Technology – um pakicetus
NYIT – New York Institute of Technology – undirflokkar hvaldýra