Lúðurkemba (Parasaurolophus) er líka þekkt undir heitinu slóeðla á íslensku. Hún var af ætt andareðla og varð allt að 10 metra löng. Hún þekkist best á stórum beinkambi ofan á höfðinu. 

Heitið lúðurkemba dregur nafn sitt af stórum beinkambi ofan á höfði eðlunnar, sem vísindamenn telja að hafi verið notaður til að skapa hávært hljóð með því að blása í gegnum kambinn líkt og þegar blásið er í lúður. Dýrin hafa líklega nýtt hljóðin til samskipta, og þar sem kambur karldýra var stærri en kvendýra hafa karldýrin mögulega nýtt sér lúðurblásturinn til að laða að sér kvendýr og fæla burt keppinauta líka. Latneska heitið þýðir aftur á móti „eins og skokkeðla (saurolophus)“ því lúðurkemban minnti á skokkeðluna. Sú hafði líka beinkamb á höfði, en mun minni. 

Hvenær uppi: Fyrir 76-74 milljónum ára (síð-krítartímabil). 
Lengd: Allt að 10 metrar. 
Þyngd: u.þ.b. 2,5 tonn. 
Mataræði: Elftingar, musteristré, furutré, annar lággróður. Lúðurkemban hefur getað bitið upp í 4 metra hæð.  
Fundarstaðir: Norður-Ameríka (Alberta í Kanada, Utah og Nýja-Mexíkó í Bandaríkjunum). 

Áhugavert: Lúðurkembur höfðu hundruðir lítilla tanna, en bara lítill hluti þeirra var í notkun hverju sinni. Þegar tennurnar eyddust (eins og vill verða í grasbítum) þá uxu nýjar upp úr kjálkabeininu svipað og fullorðinstennur okkar mannfólks (og margra/flestra spendýra).

Höfuðkúpa fullvaxins karldýrs (frá trýni og aftur á kambsenda) var jafn löng og fullvaxinn nútímakarlmaður.

 

Heimildir:
Hinn ógnvekjandi heimur: Risaeðlur (Drápa),
Wikipedia (
https://en.wikipedia.org/wiki/Parasaurolophus).