Drísileðlan (fræðih. Coelophysis) var grönn og lipur eðla með grannt og langt höfuð, margar og hvassar tennur og hlutfallslega stór augu. Hún gekk eða hljóp um á tveimur fótum og hafði 4 fingur á hvorri loppu/krumlu, þó virðist vera sem aðeins 3 þeirra hafi verið nothæfir (sá fjórði hafi verið frekar lítill eða inngróinn). Drísileðlan var ein fyrsta kjötætan í hóp risaeðla en á þeim tíma voru risaeðlur ekki ekki ofarlega í fæðukeðjunni. Aðalrándýrin á tríastímanum voru stór skriðdýr, svokölluð phytosaurus og rauisuchids.

Hvenær uppi: fyrir 228 til 190 milljónum ára, á síðari hluta tríastímans.
Hæð/lengd:  allt að 2 m á hæð alveg upprétt og 3 m á lengd frá trýni að rófu.
Þyngd: 18-23 kg
Mataræði: Skordýr, fiskar, lítil skriðdýr.
Fundarstaðir:  suðurhluti Bandaríkjanna, Suður-Afríka og Zimbabwe.
Áhugavert:
Þúsundir steingerðra drísileðlubeina hafa fundist í námu í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum og því er mikið vitað um lífshætti eðlunnar. 

Orðið „drísill“ (líka skrifað drýsill) sem kemur fyrir í íslenska heiti eðlunnar þýðir m.a. lítill maður eða smápúki. Eðlan hefur líklega minnt íslenska líffræðinga á drísil eða lítinn drýsidjöful. Latneska heitið coelophysis þýðir aftur á móti „holt form/mót“ (e. hollow form) og vísar í að eðlan hefur hol bein líkt og fuglar. 

Drísileðla til samanburðar við mann

Drísileðla, mynd eftir Dr. Jeff Martz/NPS.

Heimildir og ítarefni:
Breska alfræðiritið Encyclopædia Britannica á netinu.
Coelophysis á Dinopedia
Hinn ógnvekjandi heimur: Risaeðlur (Drápa)
Natural History Museum