Títanslangan var kyrkislanga sem kom fram á sjónarsviðið um 5 milljónum ára eftir aldauða risaeðlanna í hitabeltisfrumskógum Suður-Ameríku. Þrátt fyrir að hafa svipaða líkamsbyggð og bóa-kyrkislöngur hefur Títanslangan líklega veitt á sama hátt og anakondan; legið í launsátri, gert skyndiárás á bráðina og slegið hana rothöggi. Eins og aðrar slöngur gleypti hún bráðina í heilu lagi svo þau dýr sem urðu fyrir árás hafa ekki lifað lengi eftir það.

Hvenær uppi: fyrir 60 milljónum ára, á paleósen-tímabilinu (fyrir 66 – 56 milljónum ára).
Lengd: 13 metrar, mögulega allt að 15 metrar.
Meðalþyngd: 1.135 kg (svipað og 3 íslenskir hestar eða 2 naut)
Mataræði: fiskar og mögulega fornsögulegar skjaldbökur og krókódílar
Fundarstaðir: Kólumbía, S-Ameríka
Áhugavert: Uppgötvaðist ekki fyrr en 2003 í kolanámu í Kólumbíu og fyrsti hryggjarliðurinn fannst svo 2007. Út frá honum var hægt að áætla stærð slöngunnar. Líffræðingar áætla að líkami slöngunnar hafi verið um 90 cm í þvermál þar sem hann var þykkastur.

Árið 2012 fannst höfuðkúpa slöngu sem gaf vísindamönnum hugmynd um stærð ginsins. Skolturinn var þétt setinn tönnum og sérfræðingar hafa getið sér til um að meginfæða títanslöngunnar hafi verið fiskur. Hún hefði þó líka getað gleypt fornsögulega krókódíla og skjaldbökur sem bjuggu í sömu heimkynnum. Vísindamenn telja að títanslöngur hafi eytt stórum hluta ævi sinnar í vatni, svipað og anakondur nútímans.

Steingerðar plöntuleifar benda til þess að hitastigið á búsvæði títanslöngunnar hafi verið um eða yfir 30°C sem hefur sjálfsagt átt stóran þátt í hversu stór slangan varð. Þegar hreyfing varð á jarðskorpunni er líklegt að breyttir hafstraumar hafi valdið lækkandi hitastigi sem slangan og önnur dýr með kalt blóð áttu erfitt eða ómögulegt með að aðlagast og því lútið í lægra haldi fyrir dýrum með heitt blóð, svo sem spendýrum.

Áhugaverðar vefsíður:
https://www.britannica.com/animal/Titanoboa
https://allthatsinteresting.com/titanoboa-snake

Þó grameðlan og títanslangan hafi ekki verið uppi á sama tíma né á sama svæði þá væri áhugavert að stilla upp bardaga milli þeirra og reyna að giska á hvort þeirra myndi vinna.