Eðlufuglinn öglir (fræðih. Archaeopteryx) kom fram seint á júratímanum, fyrir um 150 milljónum ára. Hann þróaðist út frá litlum kjötæturisaeðlum og hafði því einhver einkenni þaðan, svo sem tennur og langan hala. Öglir var framan af elsti og frumstæðasti fugl sem vitað var um og þar til nýverið talinn forfaðir allra fugla. Í kringum þúsaldamótin fundust fuglslegir steingervingar frá svipuðum tíma í Kína. Þeir voru ekki af fugli heldur af fiðraðri risaeðlu sem fékk fræðiheitið Xiaotingia zhengi og ber mörg sömu einkenni og öglir, sem kallar fram efasemdir um að það sé endilega hann sem fuglar nútímans hafi þróast út frá. Öglir var með hlutfallslega stærri heila en flestar risaeðlur og rannsóknir á heilanum sýna að hann sá og heyrði afar vel.
Hvenær uppi: Fyrir 150-148 milljónum ára, seint á júratímabilinu.
Stærð: Á stærð við stóra dúfu (eða litla hænu) og gat verið allt að 50-60 cm frá goggi að hala- eða stélenda.
Mataræði: lítil skriðdýr, spendýr og skordýr.
Fundarstaðir: Þýskaland
Áhugavert: Öglir var alfiðraður líkt og fugl en hafði þrjár klær á vængjum og tennur í goggi. Líklega var hann ekki mjög flugfimur, en steingervingafræðingar telja að hann hafi getað hafið sig til flugs úr uppréttri stöðu eins og fuglar nútímans.
Meira hér:
Um fugla og þróun þeirra á vef Britannica-alfræðibókarinnar.
Britannica: Öglir – Archaeopteryx
National Geographic: Um fjaðrir á risaeðlum. The first known dinosaur feather inspired decades of dispute. Here’s why.
Uppfært 2. júlí 2023
