Grameðlan (fræðih. Tyrannosaurus Rex) er sú risaeðla sem flestir þekkja og eins og fræðiheitið gefur til kynna, eiginlegur konungur þeirra í huga margra. Hún gekk um á öflugum afturfótum og hélt jafnvægi með stórum halanum, en örsmáir framfæturnir náðu ekki einu sinni upp í skoltinn á henni. Ekki er alveg vitað fyrir víst hvort grameðlan veiddi sér til matar eða var fyrst og fremst hrææta. Lengi vel var grameðlan talin sú stærsta (og sú grimmasta) en síðan hún fannst hafa aðrar jafnstórar eða stærri og að minnsta kosti jafn vígalegar komið fram, svo sem tröllgramur (fræðih. Gigantosaurus) og þorneðla (fræðih. Spinosaurus). Grameðlan er þó talin hafa haft mesta bitkraft allra þessara eðla.
Hvenær uppi: fyrir 68-66 milljónum ára, seint á krítartímabilinu.
Stærð: Lengd frá trýni aftur á hala gat verið allt að 12,5 m og allt að 4 m hæð upp að mjaðmakömbum.
Þyngd: allt að 8.9 tonn.
Mataræði: Aðrar risaeðlur, lifandi eða dauðar. Vísindamenn eru ekki sammála um hvort grameðlan hafi eingöngu étið nýveidda bráð eða hvort hún hafi étið hræ, og þá hvort hún hafi verið hrææta eingöngu eða bara étið allt það sem að kjafti kom (svo lengi sem það var kjöt).
Fundarstaðir: Norður-Ameríka.
Áhugavert: Grameðlan gat étið meira en 200 kg af kjöti og beinum í einum bita, sem er svipað mikið og eitt fullvaxið svín eða tveir hrútar (miðað við íslensk húsdýr). Tennur grameðlunnar gátu orðið 18 cm langar og ef hún missti eina óx önnur í staðinn.
Grameðlan hafði gífurlega öfluga kjálkavöðva. Bitkraftur er yfirleitt reiknaður í pundum á fertommu (PSI – Pounds per Square Inch) og hjá grameðlunni voru þetta heil 195.500 kg (431.000 PSI) eða tæp 2 tonn. Sumir hafa komið með getgátur og útreikninga sem sýna enn meiri bitkraft, en til samanburðar er bitkraftur tígrisdýrs um 454 kg á fertommu (1050 PSI) og meðalbitkraftur manneskju er 73,5 kg á fertommu (162 PSI).
Eins og fleiri risaeðlur átti grameðlan “nágranna” hvað varðar fræðiheiti. Fornsöguleg bjalla, kannski ekki ósvipuð tordýfli, frá míósen-tímabilinu ( fyrir 23 – 5 milljónum ára) hefur fræðiheitið tyrannasorus rex og munurinn liggur í þessu eina a-i í miðjunni.
Uppfært 10.6.2023