Finngálkn

Finngálknið (fræðih. Brachiosaurus) var, eins og flestar graseðlur (sauropods), með hlutfallslega lítið höfuð á óskaplega löngum hálsi. Það var hinsvegar ólíkt þeim flestum að því leyti að framfæturnir voru lengri en afturfæturnir og bakið hallaði því aftur af dýrinu líkt og á gíröffum nútímans (og rennibrautum). Gíraffaeðlan (fræðih. Giraffatitan), sem var uppi seint á Júratímanum á því svæði sem nú er Tansanía, hafði reyndar sömu einkenni og var upphaflega nefnd „Afríku-Finngálkn“ með fræðiheitið Brachiosaurus brancai, en því var síðar breytt.

Gíraffaeðla

Finngálknið var að öllum líkindum allt að 26 m að lengd frá haus að hala og nýjustu útreikningar áætla um 56-58 tonn (fyrri áætlanir hafa verið í kringum 35, 29 eða 44 tonn) en til samanburðar er talið að Gíraffaeðlan hafi verið um 22 m að lengd og um 12 m há. Mat á þyngd hennar er allt frá 15 tonnum til 78 tonna, en vísbendingar eru um að hún hafi getað orðið stærri.