Sigðeðlur (fræðih. Therizinosauridae) var tegund risaeðla af gerð svokallaðra ráneðla (lat. theropods) eins og t.a.m. grameðlur, þorneðlur og snareðlur, sem stóðu uppréttar á 2 sterkum afturfótum með veigaminni framútlimi. Sigðeðlurnar voru þó að öllum líkindum plöntuætur; þær fyrstu af gerð ráneðla. Sigðeðlum hefur verið skipt í 5 ættkvíslir; (Beipiaosaurus, Falcarius, Alxasaurus, Erlikosaurus og Therizinosaurus (sem ber tegundarheitið sem “hin eiginlega” sigðeðla). Einkennandi fyrir þessar eðlur voru gífurlega langar klær á framútlimum sem þær hafa væntanlega notað þær sér til varnar en líka til að krækja í greinar (og draga þær til sín), og mögulega til að flysja börk af trjám. Þessar klær hafa líklega verið 70-100 cm á lengd og eru þær lengstu sem fundist hafa á nokkru dýri. 

Sigðeðlur voru annars nokkuð sérstakar í útliti; hlutfallslega lítið höfuð, stór kviður fyrir allt grænfóðrið sem þær þurftu að innbyrða og svo þessar svakalega löngu klær. Breytingin frá því að vera kjötætur yfir í plöntuætur hefur líklega átt sér stað snemma í þróunarferli sigðeðlanna og leiddi m.a. af sér flatari tennur og breytta mjaðmagrind og afturfætur til að styðja betur við þennan stóra kvið. Margt bendir til þess að sigðeðlur hafi verið hjarðdýr.   

Hvenær uppi: fyrir 100-66 milljónum ára, seint á krítartímanum 
Stærð:  9-10 m langar og 4-5 m háar.
Þyngd: allt að 6 tonn 
Mataræði: plöntur og laufblöð. 
Fundarstaðir:  Mongólía, Norður-Kína og Norður-Ameríka.  
Áhugavert: Steingerðar leifar sýna að sigðeðlur kunna að hafa verið fiðraðar á einhverju skeiði ævinnar. 

Með því að skoða lögun úlnliðar og mjaðmabeina hafa vísindamenn fundið út að sigðeðlur eru náskyldar snareðlum (e. velociraptors).

 

Heimildir og tengt efni:

  

Uppfært 14.6.2023

Sigðeðla í samanburði við 180 cm háa mannveru. Mynd fengin af vef Western Australian Museum.